Ferill 445. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 445 . mál.


658. Frumvarp til

laga

um breyting á lögum um happdrætti Háskóla Íslands, nr. 13 13. apríl 1973, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 117. löggjafarþingi 1993–94.)



1. gr.


    Við 1. gr. laganna bætist ný málsgrein, 3. mgr., svohljóðandi:
    Dómsmálaráðherra getur heimilað að við starfsemi skv. 1. og 2. mgr. séu notaðar sérstakar happdrættisvélar þannig að þátttaka, ákvörðun um vinning og greiðsla á honum fari fram vélrænt og samstundis og enn fremur að slíkar happdrættisvélar séu samtengdar, einstakar vélar og á milli sölustaða. Dómsmálaráðherra setur með reglugerð m.a. nánari ákvæði um staðsetningu, auðkenningu, fjölda og tegundir happdrættisvéla, eftirlit með þeim, notkun mynta og seðla við greiðslu fyrir þátttöku, fjárhæð vinninga og aldur þeirra, sem mega nota vélarnar.

2. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu og er frumvarpið flutt samhliða frumvarpi til laga um söfnunarkassa. Í því frumvarpi er gerð sú tillaga að dómsmálaráðherra verði heimilt að veita Íslenskum söfnunarkössum, félagi í eigu Rauða kross Íslands, Landsbjargar, landssambands björgunarsveita, Samtaka áhugamanna um áfengis- og vímuefnavandann og Slysavarnafélags Íslands, leyfi til að starfrækja söfnunarkassa með peningavinningum. Því er nauðsynlegt að afmarka þá starfsemi gagnvart happdrættisvélum Háskóla Íslands, en svo sem kunnugt er hefur Háskóli Íslands einkaleyfi til rekstrar happdrættis með peningavinningum og hefur nýlega hafið rekstur peningahappdrættis með vélum sem ekki er rekið sem flokkahappdrætti.
    Í 1. gr. þessa frumvarps er tekið fram að happdrættisvélarnar megi samtengja, einstakar vélar og á milli sölustaða. Slíka heimild er ekki að finna í frumvarpi til laga um söfnunarkassa og er á því byggt að þetta atriði verði helsta greinimark á milli söfnunarkassa annars vegar og happdrættisvéla hins vegar. Er enda ljóst að samtenging á milli véla og á milli sölustaða skapar möguleika á að byggja upp happdrættisvinninga sem eru ólíkir þeim kostum sem fyrir hendi eru varðandi staka söfnunarkassa.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í þessari grein kemur fram sú tillaga sem að ofan er lýst, að dómsmálaráðherra geti heimilað að happdrættisvélar þær sem Háskóli Íslands rekur séu samtengdar, einstakar vélar og á milli sölustaða, en eins og fram er komið er þessi framsetning nauðsynleg til þess fyrst og fremst að tryggja skýra afmörkun á þeim heimildum sem Háskóli Íslands hefur verið talinn hafa gagnvart því leyfi til reksturs söfnunarkassa sem frumvarp til laga um söfnunarkassa gerir ráð fyrir til handa öðrum.

Um 2. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga


um breyting á lögum um Happdrætti Háskóla Íslands,


nr. 13/1973, með síðari beytingum.


    Frumvarp þetta er flutt samhliða frumvarpi til laga um söfnunarkassa. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að hægt verði að heimila notkun sérstakra happdrættisvéla sem samtengdar eru milli sölustaða. Mun dómsmálaráðherra setja reglugerð um nánari útfærslu þessa lagaákvæðis, þar á meðal um eftirlit með vélunum.
    Að höfðu samráði við dómsmálaráðuneytið er það skilningur fjármálaráðuneytis að allur kostnaður af opinberu eftirliti með umræddum happdrættisvélum verði borinn af Happdrætti Háskóla Íslands og verði kostnaður ríkissjóðs af frumvarpi þessu því enginn.